Nokkur kunnugleg nöfn á blaði

Patrick Vieira.
Patrick Vieira. AFP/Glyn Kirk

Enska knattspyrnufélagið Leeds United er í stjóraleit um þessar mundir eftir að ljóst varð að Sam Allardyce héldi ekki starfi sínu áfram í kjölfar þess að karlaliðið féll úr ensku úrvalsdeildinni undir hans stjórn á nýafstöðnu tímabili.

Samkvæmt The Athletic eru þrjú nöfn á blaði hjá nýjum eigendum félagsins, bandaríska fyrirtækinu 49ers Enterprises.

Þegar hefur verið rætt við Scott Parker, sem síðast var stjóri Club Brugge í Belgíu, og Þjóðverjann Daniel Farke, sem stýrði Borussia Mönchengladbach í heimalandinu á síðasta tímabili.

Patrick Vieira, sem var rekinn frá Crystal Palace á síðari hluta síðasta tímabils, er einnig á blaði hjá Leeds.

Orðrómar hafa verið uppi um að Carlos Corberán, knattspyrnustjóri West Bromwich Albion, sé einn af þeim sem Leeds væri að íhuga að ráða en í umfjöllun The Athletic segir að félagið hafi ekki óskað eftir leyfi til að ræða við Spánverjann eða rætt mögulegar bætur sem Leeds þyrfti að greiða WBA til að fá hann yfir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert