Draumur að rætast að spila á Englandi

Arnór Sigurðsson í leik með íslenska landsliðinu.
Arnór Sigurðsson í leik með íslenska landsliðinu. Ljósmynd/Alex Nicodim

„Ég er svo ánægður. Ég er virkilega hamingjusamur og spenntur fyrir því að byrja. Núna eru félagaskiptin gengin í gegn og ég er yfir mig spenntur,“ sagði knattspyrnumaðurinn Arnór Sigurðsson, nýjasti liðsmaður enska B-deildar liðsins Blackburn Rovers.

„Hvern einasta knattspyrnumann dreymir um að spila á Englandi og nú er draumur minn að rætast með því að taka skrefið og koma til Englands.

Ég er mjög stoltur af því vegna þess að ég horfði á ensku úrvalsdeildina þegar ég var strákur og þá var Blackburn augljóslega í deildinni,“ sagði Arnór einnig í samtali við sjónvarpsstöð félagsins, Rovers TV.

Skagamaðurinn ræddi þá hvers megi vænta af honum hjá Blackburn á komandi tímabili.

„Ég get spilað á köntunum eða sem fremstur á miðjunni. Ég er tæknilega góður, finnst gaman að rekja boltann einn á einn og skapa færi fyrir liðsfélaga mína eða skora mörk sjálfur.

Samvinna er mér mjög mikilvæg, að vera góður liðsmaður. Ég hef gengið í gegnum hæðir og lægðir og vaxið sem manneskja og leikmaður.

Eftir að hafa verið upplýstur um hvað menn vilja hér og til hvers er ætlast af leikmönnunum finnst mér ég reiðubúinn að taka þetta skref og gera mitt allra besta fyrir liðið,“ bætti Arnór við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert