Ilkay Gündogan, fyrirliði þrefaldra meistara Manchester City, gengur til liðs við spænska stórveldið Barcelona á frjálsri sölu þegar samningur hans við enska félagið rennur sitt skeið í lok mánaðarins.
BBC Sport greinir frá því að Man. City hafi boðið þýska miðjumanninum nýjan samning en að honum hafi boðist betri og lengri samningur hjá Barcelona, sem er til þriggja ára.
Gündogan, sem er 32 ára gamall, var sannkallaður lykilmaður hjá Man. City þegar liðið vann sögulega þrennu á nýafstöðnu tímabili; Meistaradeild Evrópu, ensku úrvalsdeildina og ensku bikarkeppnina.
Í úrslitaleik bikarkeppninnar skoraði hann til að mynda bæði mörkin í 2:1-sigri á Manchester United og skoraði alls sex mörk í síðustu sjö leikjum tímabilsins í öllum keppnum.