Mourinho í fjögurra leikja bann

José Mourinho var ekki skemmt yfir frammistöðu dómaranna í úrslitaleik …
José Mourinho var ekki skemmt yfir frammistöðu dómaranna í úrslitaleik Evrópudeildarinnar og lét þá vita af því. AFP/Odd Andersen

Portúgalinn José Mourinho, knattspyrnustjóri Roma, hefur verið úrskurðaður í fjögurra leikja bann af Knattspyrnusambandi Evrópu, UEFA, vegna háttsemi sinnar í úrslitaleik Evrópudeildarinnar í Búdapest í Ungverjalandi undir lok síðasta mánaðar.

Roma tapaði leiknum fyrir Sevilla í vítaspyrnukeppni og var Mourinho ekki á eitt sáttur við störf dómarateymisins, þá sérstaklega Anthony Taylor.

Lét Mourinho enska dómarann heyra það á meðan leiknum stóð og sat svo fyrir honum í bílastæðahúsi Puskás-leikvangins að honum loknum, þar sem hann hélt áfram að ausa úr skálum reiði sinnar.

Fyrir vikið hefur Portúgalinn fengið fjögurra leikja bann í keppnum á vegum UEFA og má því ekki stýra Roma í fyrstu fjórum leikjum liðsins í Evrópudeildinni á næsta tímabili.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert