Mun þéna stjarnfræðilegar upphæðir í Sádi-Arabíu

N'Golo Kanté er á leið til Al-Ittihad.
N'Golo Kanté er á leið til Al-Ittihad. AFP/Justin Tallis

Franski knattspyrnumaðurinn N'Golo Kanté hefur skrifað undir samning við Al-Ittihad í Sádi-Arabíu.

Það er ítalski félagaskiptasérfræðingurinn Fabrizio Romano sem greinir frá þessu en Kanté, sem er 32 ára gamall, kemur til félagsins frá Chelsea á frjálsri sölu.

Miðjumaðurinn gekk til liðs við Chelsea frá Leicester, sumarið 2016, fyrir 32 milljónir punda en hann á að baki 227 leiki í ensku úrvalsdeildinni.

Hann varð Englandsmeistari með Leicester árið 2016 og svo aftur með Chelsea ári síðar, 2017, og þá á hann að baki 53 A-landsleiki með Frökkum. Hann varð heimsmeistari árið 2018 í Rússlandi.

Romano greinir einnig frá því að Kanté hafi skrifað undir fjögurra ára samning sem mun færa honum 100 milljónir evra í vasann, auk alls kyns bónusa, en landi hans Karim Benzema gekk til liðs við Al-Ittihad á dögunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert