Arnór Sigurðsson landsliðsmaður í knattspyrnu er að líkindum á leið til enska B-deildarfélagsins Blackburn Rovers.
Knattspyrnuvefurinn Football League World segir frá því í dag að Arnór sé á leið í læknisskoðun hjá Blackburn en hann er laus allra mála hjá Norrköping í Svíþjóð eftir að hafa verið þar í láni frá CSKA í Rússlandi.
FLW segir að frammistaða Arnós með Norrköping síðasta árið hafi vakið áhuga hjá hinum íslenskættaða knattspyrnustjóra Blackburn, Jon Dahl Tomasson, sem vilji fá hann til félagsins.
Blackburn hafnaði í sjöunda sæti B-deildarinnar í vetur og missti mjög naumlega af sæti í umspilinu um sæti í úrvalsdeildinni.
Arnór var í 25 manna hópi íslenska landsliðsins fyrir leikina gegn Slóvakíu og Portúgal en missti af þeim vegna meiðsla.