Skagamaðurinn kominn til Blackburn

Arnór Sigurðsson leikur í ensku B-deildinni á næsta tímabili.
Arnór Sigurðsson leikur í ensku B-deildinni á næsta tímabili. Ljósmynd/@Rovers

Arnór Sigurðsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, er genginn í raðir enska félagsins Blackburn Rovers frá rússneska félaginu CSKA Moskvu og búinn að semja út komandi tímabil.

Skagamaðurinn gat nýtt sér undanþágu Alþjóðaknattspyrnusambandsins, FIFA, sem gerir leikmönnum á mála hjá rússneskum félögum kleift að skipta tímabundið um lið á meðan innrás Rússlands í Úkraínu stendur.

Samningur Arnórs, sem er 24 ára gamall sóknarmaður, við CSKA Moskvu rennur út næsta sumar og verður hann þá laus allra mála.

Blackburn, sem varð Englandsmeistari árið 1995, leikur í ensku B-deildinni og setur stefnuna upp í úrvalsdeildina að nýju, þar sem liðið lék síðasta árið 2012.

Hann var að láni hjá Norrköping fyrsta þriðjung yfirstandandi tímabils í Svíþjóð og var einn besti, ef ekki besti, leikmaður úrvalsdeildarinnar þar í landi.

Skoraði Arnór fimm mörk í tíu deildarleikjum og lagði upp eitt mark til viðbótar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert