Tvær af stórþjóðum knattspyrnunnar fengu skell í vináttulandsleikjum í gærkvöldi en það gerist ekki á hverjum degi að karlalandslið Þýskalands og Brasilíu tapi og það á sama tíma.
Þjóðverjar leika eingöngu vináttulandsleiki í ár þar sem þeir eru gestgjafar á EM á næsta sumri. Þeir tóku á móti Kólumbíumönnum í Gelsenkirchen og töpuðu óvænt, 0:2. Luis Díaz skoraði snemma í seinni hálfleik eftir sendingu frá Juan Cuadrado, sem síðan innsiglaði sigurinn með marki á 82. mínútu.
Brasilíumenn voru á hálfgerðum heimavelli í kvöld, hjá frændum sínum Portúgölum í Lissabon, en töpuðu þar fyrir Senegal, 2:4. Sadio Mané var þar í stóru hlutverki en hann skoraði tvö seinni mörk Senegala. Habibou Diallo skoraði líka auk þess sem Marquinhos skoraði sjálfsmark.
Marquinhos bætti fyrir það með því að skora seinna mark Brasilíu sex mínútum síðar en fyrra mark liðsins og fyrsta mark leiksins skoraði Lucas Paquetá á 11. mínútu.