Eigendur enska knattspyrnufélagsins Chelsea hafa komist að samkomulagi við eigendur franska félagsins Strasbourg um kaup á meirihluta í því.
Todd Boehly, stjórnarformaður Chelsea, hefur áður látið hafa það eftir sér að skynsamlegt væri að eiga fleiri félög þar sem hægt væri að færa leikmenn á milli þeirra og ungir leikmenn gætu sérstaklega notið góðs af.
Eigendur enska félagsins Manchester City hafa stuðst við slíkt net þar sem þeir eru einnig eigendur eða eiga stóran eigendahlut í Girona á Spáni, New York City í Bandaríkjunum, Lommel í Belgíu, Melbourne City í Ástralíu, svo fáein dæmi séu nefnd.
Karlalið félagsins Strasbourg leikur í efstu deild í Frakklandi og hafnaði þar í 15. sæti af 20 liðum á nýafstöðnu tímabili.
Samkvæmt BBC Sport er talið að eigendur Chelsea hafi samið um að kaupa allt að 100 prósent hlut í Strasbourg og greiði 75 milljónir evra fyrir.