Frakkar byrjuðu á sigri

Bradley Barcola fagnar sigurmarki sínu í kvöld.
Bradley Barcola fagnar sigurmarki sínu í kvöld. AFP/Daniel Mihailescu

Franska U21-árs landsliðið í knattspyrnu karla hóf EM 2023 í Rúmeníu og Georgíu með besta móti í kvöld er liðið bar sigurorð af Ítalíu í D-riðli keppninnar.

Arnaud Kalimuendo, sóknarmaður Rennes, kom Frökkum í forystu um miðjan fyrri hálfleikinn eftir undirbúning Pierre Kalulu, varnarmanns AC Milan.

Pietro Pellegri, sóknarmaður Torino, jafnaði metin fyrir Ítali á 36. mínútu eftir sendingu frá Sandro Tonali, miðjumanni AC Milan sem er sterklega orðaður við Newcastle United um þessar mundir.

Staðan var 1:1 þegar flautað var til leikhlés.

Eftir rúmlega klukkutíma skoraði Bradley Barcola, sóknarmaður Lyon, sigurmark Frakklands.

Lokatölur því 2:1.

Frakkland og Ítalía eru með Sviss og Noregi í D-riðlinum, en Sviss vann viðureign þeirra fyrr í dag, 2:1.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert