Cristiano Ronaldo gekk brosandi af Laugardalsvelli í fyrrakvöld eftir að hafa átt erfitt uppdráttar í 89 mínútur.
Handrit leiksins var eins og sniðið fyrir þennan snilling. Hann komst ekkert áleiðis gegn sterkri vörn Íslands, sem hafði hann nánast í vasanum þar til hann skoraði sigurmarkið rétt fyrir leikslok.
Þá gat þessi dáðasti sonur Portúgals fagnað innilega þeim einstaka áfanga að spila 200 landsleiki fyrir þjóð sína. Það hefur enginn karlkyns fótboltamaður áður afrekað.
Eins gat hann kvatt Ísland með öllu betri minningar en eftir leik liðanna á EM í Frakklandi þar sem Ronaldo sendi Íslendingum tóninn eftir óvænt jafntefli liðanna og furðaði sig á því að þeir skyldu leggja svona mikla áherslu á varnarleik.
Ronaldo er ekki sami leikmaður og hann var á hátindi ferilsins, enda orðinn 38 ára gamall og nálgast sinn þúsundasta leik með félagsliði.
Bakvörðinn má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.