Höfnuðu risatilboði í íslenska landsliðsmanninn

Hákon Arnar Haraldsson.
Hákon Arnar Haraldsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Forráðamenn danska knattspyrnufélagsins Köbenhavn höfnuðu á dögunum risatilboði í íslenska landsliðsmanninn Hákon Arnar Haraldsson.

Það er danski miðillinn Ekstra Bladet sem greinir frá þessu en tilboðið, sem kom frá franska 1. deildarfélaginu Lille, hljóðaði upp á 15 milljónir evra, eða rúmlega 2,2 milljarða íslenskra króna.

Ekstra Bladet greinir frá því að Köbenhavn sé tilbúið að selja Hákon Arnar en félagið vill fá í kringum 20 milljónir evra fyrir hann.

Hákon Arnar, sem er tvítugur, lék 29 leiki með Köbenhavn í dönsku úrvalsdeildinni á tímabilinu þar sem hann skoraði fjögur mörk og lagði upp önnur fjögur.

Hann er samningsbundinn Köbenhavn til sumarsins 2027 en fyrr í vetur hafnaði danska félagið tilboði í leikmanninn frá RB Salzburg í Austurríki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka