Marc Kosicke, umboðsmaður og ráðgjafi Jürgens Klopps, knattspyrnustjóra Liverpool, segir ekki koma til greina að hann taki við sem þjálfari karlalandsliðs Þjóðverja af Hansi Flick.
Eftir slæmt gengi að undanförnu og ósigur gegn Kólumbíu á heimavelli, 0:2, í vináttulandsleik í vikunni, hefur Flick hefur gagnrýndur talsvert í heimalandinu.
Þýskir fjölmiðlar hafa velt upp þeirri spurningu hvort ekki væri rétt að Klopp sneri heim til Þýskalands og tæki við landsliðinu fyrir Evrópukeppnina á heimavelli á næsta ári.
„Jürgen er með langtímasamning hjá Liverpool og Þýskaland er með landsliðsþjálfara. Þetta er því ekki einu sinni til umræðu," sagði Kosicke við Bild í dag.
Klopp er samningsbundinn Liverpool til sumarsins 2026.