Markahrókurinn til Tyrklands

Edin Dzeko fer af velli í síðasta leik sínum fyrir …
Edin Dzeko fer af velli í síðasta leik sínum fyrir Inter Mílanó, úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu. AFP/Paul Ellis

Bosníski sóknarmaðurinn Edin Dzeko er búinn að skrifa undir tveggja ára samning við tyrkneska knattspyrnufélagið Fenerbahce. Kemur hann frá Inter Mílanó á frjálsri sölu.

Dzeko er orðinn 37 ára gamall en var þrátt fyrir það lykilmaður hjá Mílanó-liðinu á nýafstöðnu tímabili, þar sem liðið vann ítölsku bikarkeppnina, hafnaði í öðru sæti í Meistaradeild Evrópu og þriðja sæti í ítölsku A-deildinni.

Alls lék hann 52 leiki og skoraði 14 mörk í öllum keppnum á nýafstöðnu tímabili.

Dzeko gerði garðinn frægan hjá Manchester City þar sem hann varð tvívegis Englandsmeistari en vakti fyrst almennilega athygli tímabilið 2008/2009 þegar hann var í lykilhlutverki hjá Wolfsburg, sem stóð óvænt uppi sem Þýskalandsmeistari það tímabil.

Hann er leikjahæsti og markahæsti leikmaður í sögu bosníska landsliðsins, þar sem hann er enn fyrirliði og hefur skorað tæplega 400 mörk í öllum keppnum fyrir félags- og landslið á farsælum ferli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert