Segir Anderlecht vilja fá íslenska markvörðinn

Rúnar Alex Rúnarsson er samningsbundinn Arsenal.
Rúnar Alex Rúnarsson er samningsbundinn Arsenal. mbl.is/Arnþór Birkisson

Rúnar Alex Rúnarsson, landsliðsmarkvörður Íslands í knattspyrnu, gæti verið á förum til belgíska félagsins Anderlecht.

Belgíski fréttamaðurinn Sacha Tavolieri segir á Twitter í dag að Anderlecht hafi augastað á Rúnari Alex. Arsenal sé opið fyrir því að selja hann og vilji fá eina milljón evra fyrir markvörðinn.

Rúnar Alex lék með Alanyaspor í Tyrklandi í vetur, í láni frá Arsenal, og kannast vel við sig í Belgíu. Hann var þar í láni hjá OH Leuven hluta tímabilsins 2021-22, og þá bjó hann í Belgíu á æskuárunum þegar faðir hans, Rúnar Kristinsson, lék þar sem atvinnumaður. Rúnar Alex hefur verið í röðum Arsenal frá 2020 þegar enska félagið fékk hann til sín frá Dijon í Frakklandi.

Anderlecht er að grunni til stærsta knattspyrnufélag Belgíu en liðið endaði í ellefta sæti A-deildarinnar á síðasta tímabili. Félagið hefur unnið belgíska meistaratitilinn oftast allra, 34 sinnum, síðast árið 2017. Arnór Guðjohnsen varð þrisvar belgískur meistari með Anderlecht á níunda áratug  síðustu aldar og þá vann félagið Evrópukeppni bikarhafa árin 1976 og 1978 og UEFA-bikarinn árið 1983.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert