Þýska knattspyrnufélagið Bayern München hefur tilkynnt um komu portúgalska bakvarðarins Raphaels Guerreiro. Hann kemur á frjálsri sölu frá Borussia Dortmund og skrifaði undir þriggja ára samning.
Guerreiro er 29 ára gamall vinstri bakvörður sem getur einnig leikið á miðjunni og á vinstri kanti.
Hann hefur leikið með Dortmund undanfarin sjö tímabil og vann þar þýsku bikarkeppnina í tvígang.
Guerreiro á portúgalskan föður og franska móður og er fæddur og uppalinn í Frakklandi.
Hann þekktist boð um að leika fyrir U21-árs landslið Portúgals árið 2013 og lék svo sinn fyrsta A-landsleik ári síðar.
Guerreiro varð Evrópumeistari með Portúgal á EM 2016 og kom inn á sem varamaður í 1:0-sigri Portúgals á Íslandi á Laugardalsvelli í undankeppni EM 2024 síðastliðið þriðjudagskvöld.