Argentínski knattspyrnumaðurinn Ángel Di María hefur samþykkt eins árs samning við portúgölsku meistarana í Benfica. Di María lék áður með liðinu um þriggja ára skeið.
Di María kemur á frjálsri sölu frá Juventus, þar sem hann lék á nýafstöðnu tímabili. Áður hafði hann leikið með París Saint-Germain um sjö ára skeið, Manchester United í eitt ár og Real Madríd í fjögur ár þar á undan.
Hinn 35 ára gamli kantmaður hóf ferilinn með Rosario Central í heimalandinu en hélt þaðan til Benfica, þar sem hann lék frá 2007 til 2010. Eru því 13 ár liðin síðan Di María yfirgaf herbúðir portúgalska félagsins.
Samkvæmt ítalska félagaskiptasérfræðingnum Fabrizio Romano er Di María búinn að samþykkja munnlega eins árs samning og skrifar formlega undir hann í næstu viku.
Ángel Di Maria will become new Benfica player next week, as revealed few days ago. The verbal agreement is completed and sealed. 🚨🔴🦅 #Benfica
— Fabrizio Romano (@FabrizioRomano) June 24, 2023
Di Maria will sign until June 2024, one year deal — both parties expected it to be signed next week, documents are ready. pic.twitter.com/qrQ4aB1GNY
Hann varð heimsmeistari með Argentínu á HM 2022 í desember síðastliðnum og hefur á ferlinum unnið til gífurlegs fjölda titla með Benfica, PSG og Real Madríd.