Keyptur til Sádi-Arabíu á metfé

Rúben Neves er farinn til Sádi-Arabíu.
Rúben Neves er farinn til Sádi-Arabíu. AFP/Paul Ellis

Sádiarabíska knattspyrnu félagið Al-Hilal hefur fest kaup á portúgalska landsliðsmanninum Rúben Neves fyrir metfé hjá félaginu, 47 milljónir punda.

Neves er 26 ára gamall miðjumaður sem kemur frá Wolverhampton Wanderers á Englandi, þar sem hann hefur leikið undanfarin sex ár og þar af síðustu fimm í ensku úrvalsdeildinni.

Evrópskir knattspyrnumenn í fremstu röð ganga nú í hrönnum til liðs við sádiarabísk félög. Karim Benzema og N'Golo Kanté gengu nýverið til liðs við meistarana í Al-Ittihad og Cristiano Ronaldo samdi við Al-Nassr í janúar síðastliðnum.

Édouard Mendy markvörður Chelsea er þá á leið til Al-Ahli auk þess sem Bernardo Silva, miðjumaður Manchester City, er skotmark Al-Hilal.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka