Jamaíka, sem Heimir Hallgrímsson þjálfar, og Bandaríkin skildu jöfn, 1:1, þegar liðin áttust við í upphafsleik Gullbikars Norður- og Mið-Ameríku í knattspyrnu karla í Chicago í Bandaríkjunum í nótt.
Lærisveinar Heimis hófu leikinn með besta móti þar sem Damion Lowe kom Jamaíku í forystu eftir þrettán mínútna leik. Hann skoraði þá með góðum skalla eftir aukaspyrnu Demarai Gray, vængmanns Everton, frá hægri í fyrsta landsleik Gray.
Þegar tæplega hálftími var liðinn af leiknum fékk liðið gullið tækifæri til þess að tvöfalda forystuna er vítaspyrna var dæmd.
Leon Bailey, vængmaður Aston Villa, steig á vítapunktinn en Matt Turner, varamarkvörður Arsenal, varði spyrnuna. Bailey fékk annað tækifæri til að skora er hann náði frákastinu en skaut framhjá fyrir galopnu marki.
Staðan í hálfleik var 1:0 og hélt Jamaíka forystunni lengi vel eða allt þar til Brandon Vázquez jafnaði metin tveimur mínútum fyrir leikslok. Boltinn hrökk þá til hans í vítateignum eftir að varnarmönnum Jamaíku mistókst að hreinsa frá.
Niðurstaðan því 1:1 jafntefli og bíður Heimir enn eftir fyrsta sigrinum við stjórnvölinn hjá Jamaíku.
Fyrir fram hefði jafntefli gegn gestgjöfum Bandaríkjanna þó eflaust talist ásættanlegt og eru bæði lið nú með eitt stig í A-riðlinum.
Trínidad og Tóbagó og Saint Kitts og Nevis eru einnig í riðlinum og mætast í kvöld.