Danska knattspyrnufélagið FC Köbenhavn íhugar nú að hleypa íslenska landsliðsmanninum Ísak Bergmann Jóhannessyni frá félaginu vegna ummæla sem hann lét falla í íslenskum fjölmiðlum í aðdraganda nýafstaðins landsleikjaglugga.
„Ég nýtti mín tækifæri þegar ég fékk þau. Eins og á móti AGF, þá bjó ég til mjög mörg færi fyrir liðsfélaga mína og átti mjög góðan leik. Mér var svo hent á bekkinn og er mjög ósáttur við það.
Ég segi það alveg hreint út og er mjög ósáttur við það hvernig hefur verið komið fram við mig þarna. Góðir leikmenn vilja spila fótbolta og vonandi getur það gerst á næsta tímabili,“ sagði Ísak í samtali við mbl.is fyrr í mánuðinum.
Samkvæmt danska miðlinum Ekstra Bladet eru forsvarsmenn Köbenhavn afar ósáttir við ummæli hans og huga nú að því að leyfa Ísak að fara frá félaginu, þó ekki komi fram hvort um sölu eða lán yrði að ræða.
Í samtali sínu við mbl.is kvaðst Ísak sjálfur ekki vita hvort hann myndi spila með Köbenhavn eða öðru liði á næsta tímabili.
„Það verður bara að koma í ljós en ég er mjög ósáttur við meðferðina á mér þarna. Þegar ég fæ að spila mína stöðu þá finnst mér ég alltaf hafa staðið mig vel.
Það eru vissir leikmenn sem spila þarna og ég þarf bara að bíða eftir tækifærinu mínu. En maður getur ekki beðið endalaust. Maður þarf að sýna og sanna að maður eigi skilið að spila og ég hef gert það,“ sagði Skagamaðurinn.
Ísak var í aukahlutverki hjá Köbenhavn á síðasta tímabili er liðið vann tvöfalt og samkvæmt Ekstra Bladet hefur hann ekki áhuga á að spila fyrir annað lið í dönsku úrvalsdeildinni.