Messi átti erfitt uppdráttar í Parísarborg

Argentínski knattspyrnusnillingurinn Lionel Messi.
Argentínski knattspyrnusnillingurinn Lionel Messi. AFP/Franck Fife

Argentínski knattspyrnusnillingurinn Lionel Messi segist hafa átt erfitt uppdráttar í Parísarborg, en hann lék hjá París SG í tvö tímabil. 

„Dvöl mín í París hófst með mjög erfiðri aðlögun, miklu erfiðari en ég bjóst við og það þrátt fyrir að ég þekkti fólk í búningsklefanum. Það var erfitt að aðlagast.

Breytingin að fara í nýtt lið, að koma seint til þess, ná ekki undirbúningstímabili, venjast nýjum leikstíl, nýjum liðsfélögum og borginni. Þetta var hvorki auðvelt fyrir mig né fjölskyldu mína,“ sagði Messi í samtali við BeIN Sports.

Hann sagði stuðningsmenn hafa tekið sér vel í fyrstu en að undir lokin hafi verið farin að myndast kergja.

„Það var mjög indælt þegar ég var boðinn velkominn. En svo fór fólk að koma öðruvísi fram við mig, hluti stuðningsmanna Parísar fór að koma öðruvísi fram.

Það myndaðist gjá milli stórs hluta stuðningsmanna Parísar. Það var ekki ætlun mín, langt því frá, þetta bara atvikaðist svona. Þetta hafði gerst áður með [Kylian] Mbappé og Neymar og ég veit að svona gera þeir þetta.

Ég mun muna eftir öllu fólkinu sem virðir mig þar sem ég hef alltaf sýnt virt alla síðan ég mætti. Það er allt og sumt, þessari sögu er lokið,“ bætti Messi við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka