Sleppum vonandi við Real Madríd

Diogo Jota, sóknarmaður Liverpool (t.v.).
Diogo Jota, sóknarmaður Liverpool (t.v.). AFP/Darren Staples

Portúgalski knattspyrnumaðurinn Diogo Jota, sóknarmaður Liverpool, kveðst vona að liðið sleppi loks við að mæta Real Madríd í Evrópukeppni eftir að hafa mátt þola sífelld töp fyrir spænska liðinu í Meistaradeild Evrópu á undanförnum árum.

Real Madríd vann Liverpool í úrslitaleikjum Meistaradeildarinnar árin 2022 og 2018 og sló liðið sömuleiðis út í átta liða úrslitum keppninnar árið 2021. Auk þess unnu Madrídinga báða leiki liðanna í riðlakeppni Meistaradeildarinnar tímabilið 2014/2015.

Liverpool hafnaði í fimmta sæti ensku úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili og leikur því í Evrópudeildinni, ekki Meistaradeildinni, á næsta tímabili. Real hafnaði í öðru sæti spænsku 1. deildarinnar og verður því á sínum stað í Meistaradeildinni.

Jota óttast það samt að geta mætt Madrídingum.

„Þeir gætu einhvern veginn hafnað í þriðja sæti í riðli sínum og þannig tekist að finna enn aðra leið til þess að standa í vegi okkar.

Allt frá því að ég kom til Liverpool hef ég ávallt verið sleginn út af Real Madríd þannig að vonandi verða þeir ekki þar,“ sagði hann í samtali við fótboltatímaritið FourFourTwo.

Jota gekk til liðs við Liverpool sumarið 2020.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka