Sádi-arabíska knattspyrnufélagið Al-Hilal, sem nýverið festi kaup á portúgalska landsliðsmanninum Rúben Neves frá Wolverhampton Wanderers, hefur áhuga á að kaupa Demarai Gray, vængmann Everton.
Gray ákvað nýverið að skipta um ríkisfang og leika fyrir jamaíska landsliðið, þar sem Heimir Hallgrímsson er þjálfari.
Lagði hann upp mark Jamaíku í sínum fyrsta landsleik í 1:1-jafntefli gegn Bandaríkjunum í Gullbikarnum í nótt.
Sky Sports greinir frá því að forsvarsmenn Al-Hilal séu væntanlegir til Lundúna í komandi viku og muni þar hefja viðræður við forsvarsmenn Everton um möguleg kaup á vængmanninum fljóta.
Gray hefur leikið með Everton í ensku úrvalsdeildinni undanfarin tvö tímabil eftir að hann var keyptur á 1,7 milljónir punda frá Bayer Leverkusen sumarið 2021.