Íþróttastjóri FC Köbenhavn segir að bestu leikmenn liðsins muni ekki fara ódýrt frá félaginu, þvert á móti þurfi áhugasöm félög að reiða fram fúlgur fjár til þess að tryggja sér þjónustu þeirra.
Ekstra Bladet greindi frá því á dögunum að Köbenhavn hafi hafnað tilboði franska félagsins Lille í íslenska landsliðsmanninn Hákon Arnar Haraldsson, tilboði sem hljóðaði upp á 15 milljónir evra, eða rúmlega 2,2 milljarða íslenskra króna.
„Við erum með virkilega sterkan hóp og erum á góðum stað en það er ljóst að þegar stefna okkar hvað unga leikmenn varðar gengur vel þá myndast áhugi á þeim. Það er eins og það og það er hluti af okkar veruleika,“ sagði Peter Christiansen, íþróttastjóri félagsins, í samtali við Bold.dk.
Spurður hvort það sé nú auðveldara fyrir tvöfalda meistara Köbenhavn að hafna tilboðum í sína bestu leikmenn sagði hann:
„Ég tel að það hafi alltaf verið þannig. Við höfum haft þá stefnu að ef við þurfum að selja mikilvægustu leikmennina okkar kostar peninga og þá mikla peninga.“
Christiansen var einnig spurður hvort það væri til marks um að Köbenhavn væri á sérstaklega góðum stað ef það gæti hafnað tilboðum upp á 15 milljónir evra líkt og í tilfelli Hákons Arnars.
„Það er góð spurning. Ég get ekki tjáð mig um það því þá er ég að viðurkenni að við höfum sagt nei við þeirri upphæð.
Það er áhugi og þeir sem hafa samband vita að þeir þurfa að borga mikið fyrir leikmennina okkar,“ sagði íþróttastjórinn sposkur.