Blikar mæta Buducnost aftur ef þeir vinna

Balsa Sekulic kemur Buducnost yfir úr vítaspyrnu á Kópavogsvelli í …
Balsa Sekulic kemur Buducnost yfir úr vítaspyrnu á Kópavogsvelli í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Buducnost frá Podgorica, meistaralið Svartfjallalands, verður mótherji Breiðabliks á föstudagskvöldið ef Kópavogsliðið vinnur Tre Penne frá San Marínó á Kópavogsvelli í kvöld.

Buducnost vann Atlétic d'Escaldes, meistaralið Andorra, 3:0 í fyrri undanúrslitaleiknum í forkeppni Meistaradeildar karla í fótbolta á Kópavogsvelli í dag.

Balsa Sekulic skoraði fyrir Buducnost úr vítaspyrnu á 14. mínútu og Miomir Ðurickovic bætti við marki sjö mínútum síðar. Sekulic skoraði aftur á 60. mínútu og innsiglaði öruggan sigur.

Breiðablik og Tre Penne mætast klukkan 19 og sigurliðið mætir Buducnost í úrslitaleiknum á föstudagskvöldið en sigurliðið þar vinnur sér sæti í 1. umferð undankeppni Meistaradeildarinnar.

Blikar þekkja vel til Buducnost eftir að hafa unnið einvígi liðanna í Sambandsdeild Evrópu á síðasta ári, 3:2 samanlagt, eftir mikinn hasar í lok fyrri leiks liðanna á Kópavogsvelli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka