Eyjakonan farin frá Benfica – á leið til Arsenal?

Cloé Eyja Lacasse marki í leik með Benfica.
Cloé Eyja Lacasse marki í leik með Benfica. Ljósmynd/Benfica

Knattspyrnukonan Cloé Eyja Lacasse, sem gerði góða hluti með ÍBV um fimm ára skeið og er með ís­lensk­an rík­is­borg­ara­rétt, hefur sagt skilið við portúgalska meistaraliðið Benfica.

Cloé Eyja kvaddi Benfica á samfélagsmiðlum í dag og hefur undanfarna mánuði þráfaldlega verið orðuð við Arsenal í portúgölskum og kanadískum fjölmiðlum, en hún átti eitt ár eftir af samningi sínum í portúgölsku höfuðborginni.

Í síðustu viku greindi portúgalski miðillinn O Jogo frá því að Arsenal hafi boðið í hana og að viðræður hafi staðið yfir undanfarið.

Cloé Eyja er 29 ára gamall sóknarmaður sem hefur raðað inn mörkum fyrir Benfica frá því að hún gekk til liðs við félagið frá ÍBV fyrir fjórum árum síðan.

Hún hefur leikið fyrir kanadíska landsliðið undanfarin tvö ár og fer með því á HM 2023 í Ástralíu og Nýja-Sjálandi, en hugðist áður leika fyrir það íslenska eftir að hafa fengið íslenskan ríkisborgararétt.

FIFA úrskurðaði hins vegar að Cloé Eyja væri ekki gjaldgeng til þess þar sem hún hefði ekki búið samfleytt á Íslandi nægilega lengi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka