Skotinn Craig Brown, sem þjálfaði karlalið Skotlands í knattspyrnu um árabil, er látinn, 82 ára að aldri.
Brown þjálfaði Skotland um átta ára skeið, frá 1993 til 2001, og er enn síðasti þjálfarinn sem stýrði Skotum á heimsmeistaramóti. Það gerði hann á HM 1998 í Frakklandi.
Enginn hefur þjálfað skoska karlalandsliðið jafn lengi og Brown gerði en undir hans stjórn tók liðið einnig þátt á EM 1996 á Englandi.
Brown var sömuleiðis hluti af þjálfarateymi Skotlands þegar liðið tók þátt á HM 1986 í Mexíkó, þar sem hann aðstoðaði Sir Alex Ferguson, og HM 1990 á Ítalíu.
Á þjálfaraferlinum var hann einnig knattspyrnustjóri Aberdeen, Motherwell og Clyde í heimalandinu ásamt Preston North End í ensku B-deildinni.
Þá var hann þjálfari skoska U21-árs karlaliðsins um sjö ára skeið áður en hann tók við A-landsliðinu.