Landsliðsmaðurinn til Danmerkur?

Sverrir Ingi Ingason í baráttu við Cristiano Ronaldo í leik …
Sverrir Ingi Ingason í baráttu við Cristiano Ronaldo í leik Íslands og Portúgals í undankeppni EM 2024 í síðustu viku. mbl.is/Eyþór Árnason

Danska knattspyrnufélagið FC Midtjylland rær nú öllum árum að því að festa kaup á íslenska landsliðsmiðverðinum Sverri Inga Ingasyni, sem leikur með PAOK í Grikklandi.

Danski miðillinn Tipsbladet kveðst hafa fyrir því heimildir að viðræður hafi verið í gangi milli félaganna um nokkurt skeið og að Sverrir Ingi sé spenntur fyrir því að skipta yfir til Midtjylland.

Midtjylland er sagt reiðubúið að greiða 25 milljónir danskra króna, um hálfan milljarð íslenskra króna, til þess að tryggja sér þjónustu miðvarðarins og að PAOK myndi líkast til samþykkja ögn hærri upphæð.

Midtjylland missti fyrirliða sinn, miðvörðinn Erik Sviatchenko, til Þorleifs Úlfarssonar og félaga í Houston Dynamo í Bandaríkjunum í vor og er því í leit að sterkum miðverði fyrir næsta tímabil.

Hinn 29 ára gamli Sverrir Ingi er uppalinn hjá Breiðabliki og hóf meistaraflokksferilinn með liðinu.

Hann hefur komið víða við í Evrópu á ferlinum enda leikið með Viking í norsku úrvalsdeildinni, Lokeren í belgísku A-deildinni, Granada í spænsku 1. deildinni, Rostov í rússnesku úrvalsdeildinni og loks PAOK í grísku úrvalsdeildinni, þar sem Sverrir Ingi hefur verið undanfarið fjögur og hálft ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka