Goðsögnin fer á sitt sjötta heimsmeistaramót

Marta á leið á æfingu á Laugardalsvelli fyrir sex árum.
Marta á leið á æfingu á Laugardalsvelli fyrir sex árum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Knattspyrnugoðsögnin Marta er á leið á sitt sjötta heimsmeistaramót á ferlinum þar sem hún er í landsliðshópi Brasilíu fyrir HM 2023 í Ástralíu og Nýja-Sjálandi, sem hefst í næsta mánuði.

Marta er 37 ára gömul og tók þátt á sínu fyrsta heimsmeistaramóti fyrir tveimur áratugum síðan, árið 2003 í Bandaríkjunum.

Hún er markahæsti leikmaður í sögu heimsmeistaramóta, kvenna og karla, með 17 mörk í mótunum fimm sem hún hefur tekið þátt á.

Þrátt fyrir að búa gjarna yfir ógnarsterku liði hefur brasilíska kvennalandsliðið aldrei orðið heimsmeistari og fær Marta að minnsta kosti eitt tækifæri til viðbótar til þess að bæta bikarnum eftirsótta í safnið.

Pia Sundhage, landsliðsþjálfari Brasilíu, segir ekkert annað hafa komið til greina en að velja Mörtu í hópinn.

„Marta er drottningin, hún er táknmynd. Bara það að umgangast hana smitar út frá sér. Hvort hún byrji veit ég ekki ennþá.

Hún mun taka að sér það hlutverk sem ég veiti henni og ég er viss um að hún muni leysa það vel,“ sagði Sundhage á blaðamannafundi er hópurinn var tilkynntur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka