Hafa ekki boðið Gylfa samning

Gylfi Þór Sigurðsson.
Gylfi Þór Sigurðsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þrátt fyrir vangaveltur síðustu daga hefur bandaríska knattspyrnufélagið DC United ekki enn boðið Gylfa Þór Sigurðssyni samning. 

Bandaríski miðillinn PlanetSport greinir frá.

DC United er nú í viðræðum við Gylfa Þór sem hefur ekki spilað fótbolta síðan árið 2021, en hann var fyrst orðaður við bandaríska félagið ári áður. 

DC United er í leit að sóknarsinnuðum leikmanni til að spila fyrir framan Mateusz Klich og Lewis O'Brien á miðjunni. 

PlanetSport segir að þrátt fyrir að sumir enskir miðlar hafi greint frá því að samkomulag sé í höfn séu viðræður enn aðeins á frumstigi. 

„PlanetSport skilur málið þannig að ekkert opinbert tilboð hafi enn verið lagt fram en búist er við því að viðræður haldi áfram á næstu dögum,“ sagði miðillinn meðal annars í grein sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka