Orri Steinn Óskarsson, sóknarmaður danska knattspyrnufélagsins FC Köbenhavn, er staðráðinn í að sanna sig hjá liðinu eftir vel heppnaða lánsdvöl hjá SönderjyskE í B-deildinni á síðari hluta síðasta tímabils.
„Það var frábært að komast annað og öðlast meiri reynslu af fullorðinsfótbolta en þá sem ég hafði fengið fyrir jól.
Ég komst líka á gott skrið þar sem ég skoraði í mörgum leikjum í röð fyrir SönderjyskE og U19-ára landslið Íslands. Ég hef alltaf sagt að þegar ég spila mikið fylgja mörkin með,“ sagði Orri Steinn í samtali við heimasíðu félagsins.
Hann skoraði fimm mörk í 14 leikjum fyrir SönderjyskE en kveðst nú einungis einbeita sér að Köbenhavn.
„Nú er ég kominn hingað aftur og það er auðvelt að venjast öllu á ný því ég þekki þetta allt saman. Núna snýst þetta einungis um að sýna sig og sanna, leggja sig fram og sýna hversu góður ég er.
Það er það mikilvægasta sem stendur og svo sjáum við hvað framtíðin ber í skauti sér,“ bætti hinn 18 ára gamli Orri Steinn við.