Segir Ancelotti taka við Brasilíu

Carlo Ancelotti.
Carlo Ancelotti. AFP/Pierre-Philippe Marcou

Forseti knattspyrnusambands Brasilíu segir Ítalann Carlo Ancelotti, núverandi knattspyrnustjóra Real Madríd, taka við sem þjálfari karlalandsliðsins næsta sumar.

Samningur Ancelotti við Real Madríd rennur út næsta sumar en hvorki hann né spænska félagið hafa gefið nokkuð upp um hvað tekur við þegar samningurinn rennur sitt skeið.

Brasilía hefur verið í leit að landsliðsþjálfara allt frá því að Tite sagði starfi sínu lausu eftir heimsmeistaramótið í Katar í vetur.

Fernando Diniz, knattspyrnustjóri Fluminense, mun þjálfa brasilíska karlaliðið á meðan beðið er eftir því að Ancelotti taki við.

„Hann [Diniz] mun koma og sjá um umskiptin hjá Brasilíu fyrir Ancelotti. Leikplan hans er nánast líkt því sem þjálfarinn sem mun taka við fyrir Ameríkubikarinn [Copa América], Ancelotti, styðst við.

Við tölum ekki um hann [Diniz] sem bráðabirgðastjóra landsliðsins,“ hefur BBC Sport eftir Ednaldo Rodrigues, forseta knattspyrnusambands Brasilíu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert