Ísak skoraði og Rosenborg áfram

Ísak Snær Þorvaldsson í treyju Rosenborg.
Ísak Snær Þorvaldsson í treyju Rosenborg. Ljósmynd/Rosenborg

Norska knattspyrnufélagið Rosenborg er komið áfram í umspili um sæti í Sambandsdeild karla en liðið mætti norðurírska félaginu Crusaders í annarri umferð.

Fyrri leikur liðanna fór 1:1 og var því mikið í húfi þegar Rosenborg tók á móti Crusaders á heimavelli sínum í kvöld.

Íslenski framherjinn Ísak Snær Þorvaldsson kom við sögu í leiknum en honum var skipt inn á völlinn þegar níu mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma í stöðunni 1:1, sem urðu lokatölur og ljóst að þyrfti framlengingu til þess að krýna sigurvegara viðureignarinnar.

Í fyrri hluta framlengingarinnar skoraði Ísak Snær með skalla eftir glæsilega fyrirgjöf og kom Rosenborg yfir í einvíginu. Honum var svo skipt af velli um þremur mínútum síðar en þetta var hans fyrsti leikur með Rosenborg í nokkurn tíma vegna meiðsla.

Davíð Kristján Ólafsson lék allan leikinn með Kalmar þegar liðið tapaði á útivelli gegn Pyunik og er því úr leik í Sambandsdeildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert