Sakaður um að káfa á brjóstum leikmanns á HM

Bruce Mwape fylgist með sínu liði á mótinu.
Bruce Mwape fylgist með sínu liði á mótinu. AFP/Saeed Khan

Bruce Mwape, þjálfari kvennaliðs Sambíu í fótbolta, hefur verið ásakaður um að hafa káfað á brjóstum leikmanns síns tveimur dögum fyrir sögulegan sigur liðsins á Kosta Ríka á HM í Ástralíu og Nýja-Sjálandi.

FIFA, Alþjóða knattspyrnusambandið, hefur staðfest að sambandinu hafi borist kvörtun þess efnis.

The Guardian greinir frá í dag að nokkrir leikmenn hafi orðið vitni að atvikinu, sem gerðist eftir æfingu á föstudag fyrir viku. Þær ræddu um að tilkynna atvikið fyrr, en ákváðu að bíða eftir að Sambía hefði lokið keppni á mótinu, af ótta við að missa sæti sitt í liðinu.  

Eftir síðasta leikinn ræddu leikmenn við starfsmann FIFA, sem hafði það hlutverk að fylgja sambíska liðinu meðan á mótinu stóð.

Leikmenn Sambíu fagna marki á móti Kosta Ríka.
Leikmenn Sambíu fagna marki á móti Kosta Ríka. AFP/Saeed Khan

„FIFA tekur allar ábendingar um brot mjög alvarlega. Við getum staðfest að það hefur borist ábending tengd sambíska liðinu. Við munum ekki gefa út frekari upplýsingar af svo stöddu,“ sagði m.a. í yfirlýsingu FIFA.

Knattspyrnusamband Sambíu lýsti yfir undrun í yfirlýsingu sem það sendi frá sér vegna málsins. „Við viljum koma því á framfæri að sambandinu hefur ekki borist nein kvörtun frá leikmanni, né öðru starfsfólki. Það kemur okkur á óvart að slíkar ásakanir hafa verið lagðar fram,“ sagði í yfirlýsingunni.

The Guardian hefur áður fjallað um ásakanir á hendur Mwape. „Ef hann vill sofa hjá þér verður þú að segja já. Það er algengt að þjálfarinn sofi hjá leikmönnum í liðinu,“ sagði leikmaður liðsins við miðilinn, en hún vildi ekki koma fram undir nafni, af ótta við að missa sæti sitt í liðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert