Breiðablik vann Zrinjski, 1:0, í 3. umferð Evrópudeildar karla í knattspyrnu á Kópavogsvelli í kvöld. Þetta var síðari leikur liðanna en bosníska liðið vann fyrri leikinn 6:2 og einvígið því samanlagt 6:3.
Leikurinn byrjaði ansi rólega og lágu leikmenn Breiðabliks til baka í upphafi án þess þó að gestirnir sköpuðu mikið. Fyrsta færið kom þó á 10. mínútu þegar Nemanja Bilbija komst einn inn fyrir eftir stungusendingu en Brynjar Atli mætti honum vel og tók boltann.
Blikar fóru hægt og rólega að vinna sig inn í leikinn og á 36. mínútu fékk Höskuldur Gunnlaugsson flott færi inni í teig gestanna en skaut yfir. Hann var síðan aftur á ferðinni 43 mínútu þegar Jason brunar upp í skyndisókn, gefur boltann á Gísla sem skorar en markið var dæmt af sökum rangstöðu. Fleira markvert gerðist ekki í fyrri hálfleik og staðan 0:0 þegar liðin gengu til búningsherbergja.
Síðari hálfleikur byrjaði rólega og gerðist lítið fyrstu 10 mínúturnar. En þá fóru blikar í gang. Á 54. mínútu komst Breiðablik í 1:0 þegar Davíð Ingvarsson kom með fyrirgjöf inn í vítateig gestanna sem settu boltann í eigið mark. Markið var eins og vítamínsprauta fyrir Breiðablik sem sóttu strax aftur að markið Zrinjski og fengu hornspyrnu. Úr henni skallaði Klæmint boltann í stöngina úr sannkölluðu dauðafæri. Blikar unnu boltann strax aftur og fékk Höskuldur boltann og skaut yfir.
Á 64. mínútu meiddist Kristinn Steindórsson og kom Ágúst Eðvald Hlynsosn inn á I hans stað.
Á 80. mínútu hneig leikmaður HSK Zrinjski, Mario Ticinovic niður við hliðarlínuna og leit atvikið vægast sagt illa út. Eftir aðhlynningu gat hann þó staðið sjálfur upp og var skipt út af.
Á 85. mínútu vildu leikmenn Breiðabliks fá vítaspyrnu. Eftir mjög fljóta athugun ákvað dómarinn í samráði við aðstoðarmenn í myndbandsherberginu að dæma ekkert. Ekkert markvert gerðist eftir þetta og lokatölur á Kópavogsvelli 1:0 fyrir Breiðablik sem er á leið í umspil um laust sæti í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar.