Forsetinn óð á súðum: „Hálfvitar alls staðar“

Jennifer Hermoso, Rocio Gálvez og Luis Rubiales í gær.
Jennifer Hermoso, Rocio Gálvez og Luis Rubiales í gær. AFP/Franck Fife

Luis Rubiales, forseti spænska knattspyrnusambandsins, er ekki á eitt sáttur við gagnrýni í sinn garð eftir að hann smellti rembingskossi á munn Jennifer Hermoso, leikmann kvennalandsliðsins, eftir að liðið tryggði sér heimsmeistaratitilinn í gær.

Spurð út í atvikið kvaðst Hermoso ekki hafa notið þess að fá koss á munninn frá Rubiales.

„Kossinn með Jenni? Það eru hálfvitar alls staðar. Þegar tvær manneskjur sýna af sér léttvæga ástúð getum við ekki gefið hálfvitaskap gaum. Við erum meistarar, ég held mig við það,“ sagði hann í samtali við Radio Marca.

Í samtali við El Partidazo óð Rubiales á súðum og sagði: „Ég ætla ekki að veita hálfvitum eða heimskingjum athygli. Þetta er hátindur þess þegar tveir vinir eru að fagna saman.

Við erum ekki að spá í einhverju kjaftæði. Eftir allt sem ég hef gengið í gegnum þá nenni ég ekki meira rugli og fleiri skíthælum.

Hunsum þetta og njótum þess góða. Ekki einu sinni segja mér frá aumingjum sem geta ekki séð hið jákvæða. Þetta er alveg laust við illsku. Ef það eru vitleysingar skulum við leyfa þeim að halda áfram með bullið sitt.

Það eru fleiri hálfvitar en gluggar. Veitum þeim athygli sem eru ekki bjánar. Þetta er alveg laust við illsku og algjört kjaftæði. Fólk er að sóa tíma sínum að ræða þetta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert