Neyðarfundur hjá knattspyrnusambandinu

Luis Rubiales knúsar Rocio Galvez. Hann þótti mjög óþægilegur í …
Luis Rubiales knúsar Rocio Galvez. Hann þótti mjög óþægilegur í fagnaðarlátum sínum eftir leik. AFP/Franck Fife

Boðað hefur verið til neyðarfundar hjá Knattspyrnusambandi Spánar vegna hegðunar Luis Rubiales, forseta sambandsins, eftir að Spánn varð heimsmeistari kvenna í fótbolta um síðustu helgi.

Rubiales sýndi óviðeigandi hegðun eftir leik, kyssti fleiri en einn leikmann á munninn, ásamt því að hann greip um eigið klof.

Hann sá lítið eftir hegðuninni strax í kjölfarið og sagði hálfvita leynast alls staðar, þegar hann var spurður út í gagnrýnisraddir. Hann baðst síðan loks afsökunar eftir mikil og hörð viðbrögð.

Pedro Sánchez, forætisráðherra Spánar, er á meðal þeirra sem hafa gefið lítið fyrir afsökunarbeiðnina og kallað eftir því að Rubiales verði refsað fyrir athæfin.

Rubiales hefur lítinn áhuga á að segja af sér, en sambandið er nú undir pressu að segja honum upp störfum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert