Verður Greenwood lærisveinn Heimis?

Mason Greenwood gefur boltann fyrir í leik Íslands og Englands …
Mason Greenwood gefur boltann fyrir í leik Íslands og Englands í september árið 2020. AFP

Knattspyrnumaðurinn Mason Greenwood á möguleika á því að skipta um ríkisfang og leika fyrir landslið Jamaíku, þar sem Heimir Hallgrímsson er landsliðsþjálfari.

Greenwood á einn keppnisleik að baki fyrir enska A-landsliðið, í Þjóðadeild UEFA gegn Íslandi á Laugardalsvelli þann 5. september árið 2020. Þá var hann einungis 18 ára gamall og var eins og frægt varð rekinn heim ásamt Phil Foden eftir að þeir fengu tvær íslenskar stúlkur í heimsókn á hótelherbergi sitt, sem var harðbannað vegna þágildandi sóttvarnareglna.

Þrátt fyrir að eiga einn keppnisleik fyrir England getur Greenwood skipt um ríkisfang og leikið fyrir annað landslið. Greinir Daily Mail frá því að Jamaíka, þaðan sem hann á ættir að rekja, hafi áhuga á því að fá sóknarmanninn unga til þess að spila fyrir landsliðið.

Samkvæmt reglum FIFA getur leikmaður skipt um ríkisfang og leikið fyrir annað landslið ef:

1. Leikmaðurinn var með ríkisfang nýja knattspyrnusambandsins þegar hann lék sinn fyrsta landsleik fyrir fyrra A-landslið sitt.

2. Leikmaðurinn lék í mesta lagi þrjá keppnisleiki fyrir fyrra A-landsliðið áður en hann náði 21 árs aldri.

3. Leikmaðurinn hefur ekki leikið keppnisleik í lokakeppni með téðu landsliði.

4. Að minnsta kosti þrjú ár eru liðin frá því að leikmaðurinn lék síðast fyrir fyrra landslið sitt.

Sem stendur eiga fyrstu þrjú atriðin við um Greenwood og þann 5. september næstkomandi verða liðin þrjú ár frá fyrsta og eina A-landsleik hans fyrir England. Tikkar hann upp frá því í öll fjögur ofangreind box.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert