„Ég samþykkti aldrei þennan koss“

Jennifer Hermoso, Rocio Gálvez og Luis Rubiales á verðlaunaafhendingunni.
Jennifer Hermoso, Rocio Gálvez og Luis Rubiales á verðlaunaafhendingunni. AFP/Franck Fife

Jennifer Hermoso, leikmaður spænska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, segir að kossinn sem hún fékk frá Luis Rubiales, forseta spænska knattspyrnusambandsins, hafi ekki verið með hennar samþykki.

Þetta kom fram í yfirlýsingu sem allir 23 leikmennirnir heimsmeistara Spánar skrifuðu undir, sem og fleiri knattspyrnumenn og konur, þar sem kallað er eftir breytingum á forystu spænska knattspyrnusambandsins.

Forsetinn Rubiales hefur sætt harðri gagnrýni í vikunni eftir að hann kyssti Hermoso á munninn á verðlaunaafhendingu HM í Sydney í Ástralíu á sunnudaginn og hafa margir kallað eftir afsögn hans í kjölfarið.

Á ekki að vera vandamál

„Þessi koss er eitthvað sem gerðist í hita leiksins, með samþykki beggja aðila. Þar sem báðir aðilar voru samþykkir honum á þetta ekki að vera vandamál,“ lét Rubiales hafa eftir sér í samtali við spænska fjölmiðla.

Í yfirlýsingu leikmanna Spánar kemur hins vegar glöggt fram að kossinn var ekki með samþykki beggja.

„Ég vil að það komi skýrt fram að ég samþykkti aldrei þennan koss. Ég hef engan húmor fyrir því að orð mín séu dregin í efa og að einhver telji sig vita hvað ég sagði og sagði ekki,“ segir meðal annars í yfirlýsingunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert