Forsetinn neitar að segja af sér

Luis Rubiales, forseti spænska knattspyrnusambandsins, segist ekki ætla að segja af sér þrátt fyrir að sitja í heitu sæti í kjölfar hegðunar sinnar eftir úrslitaleik kvennaliðs Spánar og Englands á HM 2023 á sunnudag.

Í gær bárust fregnir af því að Rubiales hygðist segja af sér en miðað við ræðu hans á neyðarfundi spænska knattspyrnusambandsins í gær er það alls ekki í áætlunum forsetans.

Rubiales kyssti Jennifer Hermoso á munninn í óþökk hennar og hafði áður fagnað í stúkunni á leikvanginum í Sydney í Ástralíu með því að grípa um pung sinn.

„Þetta er stjórnin sem kaus mig og sem ég þarf að útskýra mál mitt fyrir. Ég vil biðjast afsökunar á atviki sem átti sér stað í stúkunni. Ég vil útskýra það með því að líta til Jorge Vilda [þjálfara kvenna landsliðsins],“ sagði Rubiales.

Vilja gera mér það sama og Vilda

Vilda hefur sjálfur verið umdeildur og neituðu til að mynda 15 leikmenn kvennalandsliðsins að spila fyrir það undir hans stjórn á síðasta ári, auk þess sem hann greip um brjóst kvenkyns starfsmanns liðsins á meðan á úrslitaleiknum stóð á sunnudag.

Rubiales ákvað því næst að mála sjálfan sig og Vilda upp sem fórnarlömb.

„Við höfum gengið í gegnum ýmislegt saman, fólk hefur viljað gera þér það sama og það er að gera mér núna, það reynir að búa til eitthvað falskt og snúa því gegn þér.

Ég var mjög tilfinningaríkur þegar þú vannst HM og snerir þér til mín og tileinkaðir mér sigurinn. Þá gerði ég þetta. Ég vil biðja Spánardrottningu afsökunar, ég hef aldrei hagað mér svona í stúkunni.“

Eins og að kyssa dóttur mína

Um kossinn sagði Rubiales hann hafa verið með samþykki Hermoso. Hún hefur sagt svo ekki vera.

„Þetta var meira léttur koss en alvöru. Það var engin girnd, þetta var eins og ef ég væri að kyssa dóttur mína. Ég drottnaði ekki yfir henni. Þetta var sjálfsprottið, gagnkvæmt og með samþykki.

Ég á í góðu sambandi við alla leikmennina og við sýndum hverju öðru ástúð. Jenni reif mig upp og við duttum næstum því. Það var hún sem lyfti mér upp.

Við föðmuðumst og ég sagði við hana: „Gleymdu því að þú hafir klúðrað vítaspyrnu, þú hefur verið stórkostleg á þessu heimsmeistaramóti og hún sagði að ég væri fyndinn. Ég spurði hana hvort ég mætti gefa henni lítinn koss og hún sagði að það væri í lagi.“

Verið að reyna að drepa mig

„Þetta er félagslegt morð, það er verið að reyna að drepa mig. Sem Spánverji verðum við að skoða á hvaða leið við erum.

Gervifemínismi leitast ekki eftir réttlæti og er ekki á eftir sannleikanum, honum er sama um fólk. Það er tímabært að segja eitthvað. Það var rangt af mér að gera þetta [grípa um pung sinn]. Er það svo alvarlegt ég þurfi að fara?

Ég ætla ekki að segja af mér. Ég mun berjast allt til enda,“ bætti Rubiales við og ítrekaði það þrisvar að hann hygðist ekki segja af sér.

Luis Rubiales hyggst ekki fara fet.
Luis Rubiales hyggst ekki fara fet. AFP/Gabriel Bouys
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert