Spilar ekki nema forsetinn víki

Borja Iglesias í leik með spænska landsliðinu.
Borja Iglesias í leik með spænska landsliðinu. AFP/Javier Soriano

Borja Iglesias, sóknarmaður spænska karlalandsliðsins í knattspyrnu og Real Betis í heimalandinu, kveðst ekki ætla að gefa kost á sér í landsliðið á meðan Luis Rubiales er forseti spænska knattspyrnusambandsins.

Rubiales sagði í ræðu á neyðarfundi sambandsins í gær að hann hefði ekki í hyggju að segja af sér þrátt fyrir þrýsting þess efnis úr hinum ýmsu áttum.

FIFA og sambandið rannsaka nú hátterni hans eftir úrslitaleik HM 2023 í knattspyrnu kvenna, sem Spánn vann, þar sem hann kyssti leikmann kvennaliðsins, Jennifer Hermoso, á munninn í óþökk hennar og hafði þar á undan gripið um hreðjar sér í stúkunni í Sydney í Ástralíu í leikslok.

Ummælin vandræðaleg

Iglesias er þrítugur og á tvo A-landsleiki að baki, einn í ár og þann fyrsta á síðasta ári. Kvaðst hann „vera að missa vitið“ er hann horfði á ræðu Rubiales.

Fleiri spænskir knattspyrnukarlar hafa látið í sér heyra vegna málsins, þar á meðal markvörðurinn David de Gea, sem er án félags sem stendur, fyrrverandi markvörðurinn Iker Casillas og Héctor Bellerín, leikmaður Betis.

De Gea skrifaði um ræðu Rubiales á Twitter: „Það blæðir úr eyrunum mínum.“

Casillas sagði ummæli Rubiales „vandræðaleg“ og að heimsmeistarar Spánar hefðu átt það skilið að rætt yrði um leikmennina undanfarna fimm daga í stað hans.

Bellerín lagði einnig orð í belg: „Hinn sjálfhverfi trúir því aldrei að hann hafi gert mistök. Hann er fær um að ljúga, hagræða sannleiknum og láta líta út fyrir sekt fórnarlambsins til þess að viðhalda völdum sem hann hefur yfir öðrum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert