Ætla í mál vegna ummæla Hermoso

Kossinn umtalaði.
Kossinn umtalaði. Ljósmynd/Skjáskot

Spænska knattspyrnusambandið segist munu fara í mál vegna ummæla Jenniar Hermoso um forseta þess, Luis Rubiales.

Rubiales hefur neitað að segja af sér í kjölfar þess að hafa kysst sóknarmanninn Hermoso á munninn í kjölfar þess að lið Spánar varð heimsmeistari í fótbolta í Sydney í Ástralíu á dögunum.

Hermoso hefur sagt að kossinn hafi verið í óþökk hennar en knattspyrnusambandið hefur dregið hennar hlið sögunnar í efa.

Sönnunargögnin eru óyggjandi hefur sambandið sagt. „Herra forseti hefur ekki sagt ósatt.“

Í yfirlýsingu birtir sambandið fjórar ljósmyndir af sóknarmanninum í faðmlögum við forsetann sem sambandið segir að hún hafi beitt afli við að lyfta honum frá jörðu.

Í yfirlýsingu frá spænsku leikmannasamtökunum er haft eftir Hermoso að hún hafi ekki í neinu tilviki reynt að lyfta forsetanum frá jörðu á meðan þau voru í faðmlögum á verðlaunapallinum.

Sambandið hefur reynt að hafa samband við Hermoso en án árangurs. Hún er markahæst þeirra spænsku með 51 mark í 101 leik fyrir liðið.

Spænskar fótboltakonur, 81 talsins, hafa sagt að þær muni ekki leika fyrir þjóð sína á meðan Rubiales er forseti sambandsins. Þá hefur sóknarmaður karlaliðs Real Betis, Borja Iglesias einnig sagt að hann muni ekki leika fyrir þjóð sína á ný á meðan forsetinn situr fastur við sinn keip.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert