Svokallaðir svæðisforsetar spænska knattspyrnusambandsins hafa krafist uppsagnar Luis Rubiales, aðalforseta sambandsins, vegna hegðunar hans eftir að Spánn varð heimsmeistari kvenna í fótbolta á dögunum.
Varð þetta niðurstaða neyðarfundar hjá sambandinu í dag, en það hefur fundað stíft undanfarna daga.
Eins og mbl.is hefur fjallað vel um að undanförnu kyssti Rubiales nokkra leikmenn spænska liðsins á munninn eftir úrslitaleikinn við England, ásamt því að sýna af sér frekari óviðeigandi hegðun.
Hefur Rubiales neitað að segja upp, þrátt fyrir vægast sagt mikla pressu og gagnrýni. Þá gæti hann átt yfir höfði sér ákæru fyrir kynferðislega áreitni.
Er málið til skoðunar hjá spænskum yfirvöldum, sem og knattspyrnuyfirvöldum þar í landi og FIFA, Alþjóða knattspyrnusambandinu, sem úrskurðaði hann í 90 daga bann frá fótbolta í síðustu viku.