Móður Luis Rubiales, forseta knattspyrnusambandsins, finnst illa að syni sínum vegið þar sem kallað hefur verið eftir afsögn hans í kjölfar hátternis Rubiales að loknum úrslitaleik HM 2023 í knattspyrnu kvenna, þar sem Spánn varð heimsmeistari í fyrsta sinn.
Rubiales greip um hreðjar sér og kyssti leikmanninn Jennifer Hermoso á munninn í hennar óþökk en hefur neitað að segja af sér.
Var hann á dögunum úrskurðaður í 90 daga bann af Alþjóðaknattspyrnusambandinu, FIFA, og má á þeim tíma ekki hafa nein afskipti af knattspyrnu.
Spænski miðillinn Sport greinir frá því að móðir Rubiales, Angeles Bejar, hafi ákveðið að grípa til örþrifaráða.
Hefur hún læst sig inni í Divina Pastora-kirkjunni í Motril á Spáni og lýst yfir að hún sé í hungurverkfalli þar til lausn finnist á „ómannúðlegri“ meðferð í garð sonar síns.