„Ég er tilbúin að deyja“

Claudia Zornoza og Luis Rubiaels á verðlaunaafhendingunni umræddu.
Claudia Zornoza og Luis Rubiaels á verðlaunaafhendingunni umræddu. AFP/Franck Fife

Angeles Bejar, móðir Luis Rubiales forseta spænska knattspyrnusambandsins, segist tilbúin að deyja fyrir réttláta meðferð í garð sonar síns.

Í gær bárust fréttir af því að Bejar væri í hungurverkfalli og hefði læst sig inni í Divina Pastora- kirkjunni í Motril á Spáni þar til lausn finnst í máli sonar hennar.

Rubiales hefur verið harðlega gagnrýndur undanfarna daga eftir að hann kyssti Jenni Hermoso, leikmann spænska kvennalandsliðsins, á munninn í hennar óþökk, á verðlaunaafhendingu HM í Sydney í Ástralíu á sunnudaginn í síðustu viku.

Tilefnislausar nornaveiðar

Margir hafa kallað eftir afsögn forsetans og var hann meðal annars úrskurðaður í 90 daga bann hjá FIFA um nýliðna helgi.

„Ég verð hérna eins lengi og líkaminn þolir,“ sagði Bejar í samtali við spænska fjölmiðla í dag.

„Ég er tilbúin að deyja fyrir réttláta meðferð í garð sonar míns. Hann er góð manneskja og þessar nornaveiðar eru tilefnislausar,“ bætti Bejar við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert