Spænska knattspyrnusambandið leitar nú leiða til þess að víkja Jorge Vilda, þjálfara heimsmeistara Spánar í knattspyrnu kvenna, frá störfum.
BBC Sport greinir frá.
Flestir í starfsliði Vilda sögðu starfi sínu lausu í mótmælaskyni vegna þess að Luis Rubiales, forseti sambandsins, vildi ekki segja af sér þrátt fyrir þrýsting úr ýmsum áttum eftir að hafa kysst Jenni Hermoso, leikmann Spánar, á munninn í óþökk hennar.
Vilda klappaði Rubiales lof í lófa á neyðarfundi sambandsins, þar sem hann lýsti því yfir að hann væri fórnarlamb nornaveiða og hygðist alls ekki ætla að segja af sér.
Síðar gaf Vilda frá sér yfirlýsingu þar sem hann gagnrýndi Rubiales fyrir hátterni sitt.
Á síðasta ári stóð Rubiales þétt við bakið á Vilda þegar fimmtán leikmenn spænska kvennalandsliðsins sögðust ekki munu spila fyrir landsliðið á meðan Vilda væri við stjórn, þar sem andleg heilsa þeirra hafi beðið hnekki.
Aðeins þrír leikmannanna skiptu síðar um skoðun og áttu þátt í að vinna fyrsta heimsmeistaratitil liðsins.
Spænska knattspyrnusambandið telur að sé allt tekið saman sé grundvöllur fyrir því að reka Vilda úr starfi.