Móðir forsetans lögð inn á spítala

Luis Rubiales.
Luis Rubiales. AFP/Eidan Rubio

Angeles Bejar, móðir hins umdeilda Luis Rubiales, forseta spænska knattspyrnusambandsins, var í dag lögð inn á spítala á þriðja degi hungurverkfalls.

Hefur Bejar verið í hungurverkfalli undanfarna daga, til að mótmæla meðferðinni sem sonurinn hefur þurft að þola undanfarna daga.

Rubiales hefur verið harðlega gagnrýndur vegna hegðunar sinnar eftir að Spánn varð heimsmeistari kvenna fyrr í mánuðinum, en hann kyssti leikmenn á munninn án þeirra samþykkis og greip um klof sitt í fagnaðarlátunum.

Er hann undir gríðarlegri pressu að segja upp störfum, en hefur hingað til ekki haggast, á meðan móðir hans hefur verið í hungurverkfalli í Di­vina Pastora-kirkj­unni í Motril á Spáni.

„Ég verð hérna eins lengi og lík­am­inn þolir. Ég er til­bú­in að deyja fyr­ir rétt­láta meðferð í garð son­ar míns. Hann er góð mann­eskja og þess­ar norna­veiðar eru til­efn­is­laus­ar,“ sagði Bejar við spænska fjölmiðla í gær. 

Di­vina Pastora-kirkj­an í Motril á Spáni.
Di­vina Pastora-kirkj­an í Motril á Spáni. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert