Breska ríkissjónvarpið, BBC, bað lesendur vefsíðu sinnar afsökunar á mistökum í umfjöllun um hinn afar umdeilda Luis Rubiales, forseta spænska knattspyrnusambandsins.
Í frétt á vefnum var mynd af Pablo Zabaleta, fyrrverandi knattspyrnumanni hjá liðum á borð við Manchester City og West Ham, í staðinn fyrir Rubiales. Þykja þeir líkir, enda með sömu hárgreiðslu.
Voru lesendur snöggir að átta sig á mistökunum, sem blaðamaður miðilsins leiðrétti og baðst afsökunar á.
Rubiales er einn umtalaðasti maður knattspyrnuheimsins um þessar stundir vegna óviðeigandi hegðunar eftir að spænska kvennalandsliðið varð heimsmeistari fyrr í mánuðinum.
Kyssti hann leikmenn eftir leik, greip í klofið á sér og gerði sig sekan um aðra óviðeigandi hegðun. Er hann undir mikilli pressu að segja af sér sem forseti, en hann ætlar sér að sitja sem fastast í forsetastólnum.