Dapurlegt að leikmennirnir fái ekki athyglina

Irene Guerrero og Catalina Coll fagna eftir að heimsmeistaratitlinn var …
Irene Guerrero og Catalina Coll fagna eftir að heimsmeistaratitlinn var í höfn. AFP/Izhar Khan

Catalina Coll, markvörður heimsmeistara Spánar í knattspyrnu kvenna, segir það dapurlegt að öll athygli beinist að Luis Rubiales, forseta spænska knattspyrnusambandsins, í stað leikmannanna sem hafi unnið afrekið.

Coll kveðst styðja liðsfélaga sinn Jenni Hermoso í einu og öllu eftir að hún sagði koss Rubiales á munn sinn ekki hafa verið með sínu samþykki. Kallað hefur verið eftir afsögn Rubiales vegna hátternis hans og umræðan eftir sigur Spánar á heimsmeistaramótinu í Ástralíu að stærstum hluta snúist um forsetann.

„Ég er döpur yfir því að knattspyrnukonurnar séu ekki þær sem veki athygli fólks. Það sem veldur mér vonbrigðum er að allir sem stöðva þig á götunni ræða við þig um þetta í stað þess að segja: „Til hamingju með heimsmeistarabikarinn!“

Ég hef fagnað á Mallorca, ég hef fengið hlýjar móttökur og er hamingjusöm vegna þess sem við áorkuðum. En hluti af mér er leiður yfir því sem er að eiga sér stað.

Ég vil fremur ræða um hvernig ég stóð mig á HM, ekki þetta,“ sagði Coll í samtali við BBC Mundo.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert