Óvíst er hvar Breiðablik mun spila heimaleiki sína í riðlakeppni Sambandsdeildar karla í knattspyrnu á komandi keppnistímabili.
Breiðablik tryggði sér sæti í riðlakeppninni með 1:0-sigri gegn Struga frá Norður-Makedóníu í síðari leik liðanna á Kópavogsvelli í kvöld en fyrri leik liðanna í Ohrid lauk með 1:0-sigri Blika sem unnu einvígið samanlagt 2:0.
„Það er dregið í riðla á morgun og það er bara þannig að Laugardalsvöllur er eini völlurinn sem hægt er að spila heimaleikina á hér á landi,“ sagði Flosi Eiríksson, formaður knattspyrnudeildar Breiðabliks, í samtali við mbl.is í kvöld.
„Reglur UEFA kveða á um að við þurfum að spila alla þrjá heimaleikina okkar á sama vellinum og það er því ekki í boði að flakka á milli valla. Við munum skoða aðra möguleika, til dæmis erlendis, en það gengur ekki að spila í Færeyjum þar sem KÍ Klaksvík verður einnig í riðlakeppninni,“ sagði Flosi.
Leikið verður í september, október, nóvember og desember í Sambandsdeildinni og því ljóst að síðasti heimaleikur Breiðabliks í keppninni yrði annaðhvort um miðjan nóvember eða fyrri partinn í desember.
„Við munum skoða alla þá kosti sem í boði eru og taka svo ákvörðun út frá því. Við verðum að vera algjörlega örugg um það að geta spilað leikina hérna heima og við höfum rætt þann möguleika við KSÍ. Við þurfum svo bara að bíða og sjá og hvað þeir treysta sér til þess að gera til þess halda vellinum góðum.
Það er allavega alveg ljóst að við munum ekki spila á Kópavogsvelli. Það er búið að ganga þann veg algjörlega á enda og við fengum undanþágu til að spila leikinn gegn Struga hérna. Við getum þess vegna ekki einu sinni leyft okkur að dreyma um það,“ bætti Flosi við í samtali við mbl.is.